Könnun um notkun rafrænna viðskiptaskeyta á Íslandi

Nú nýverið fékk Icepro styrk frá CEF (Connecting Europe Facility) til að framkvæma könnun um notkun á rafrænum viðskiptaskeytum á Íslandi.

Könnunin er hluti af stærra verkefni ICELAND-INV18 sem snýr fyrst og fremst að því að aðstoða átta opinbera aðila, ríkisfyrirtæki og sveitarfélög við að setja upp og taka í notkun samevrópskan rafrænan reikning ÍST EN 16931. Um er að ræða uppfærslu á þeirri XML tækniforskrift og staðli sem er í notkun á Íslandi en ríkisstofnunum ber skilda til að taka hann í notkun frá og með 18. apríl 2019 og sveitarfélögum ári síðar. Jafnframt verður sett upp ein samræmd skematróna opin öllum frá vefsíðu Staðlaráðs og skoðað lagalegt umhverfi rafrænna reikninga. Gefin verður út skýrsla um verkefnið að því loknu haustið 2020.

Könnunin var send á 375 aðila sem nota rafræn viðskiptaskeyti í dag hvort sem er á EDI eða XML sniði. Hún verður send út aftur í júní 2020 til að skoða hvort umhverfið hafi breytst á árinu m.a. með upptöku nýja staðalsins. Litlar upplýsingar eru til um notkun rafrænna viðskiptaskeyta og er með þessari könnun reynt að fá nokkrar upplýsingar um stærðargráðu notkunar innan fyrirtækja og upplifun notenda af notkuninni. Jafnframt er safnað upplýsingum frá skeytamiðlurum um þær skeytategundir sem eru í notkun hérlendis.

Samtöl við skeytamiðlara

Stjórn Icepro ásamt Bergþóri Skúlasyni hélt fundi með öllum skeytamiðlurum á Íslandi og lagði fyrir þá spurningalista til að kanna hvort umbóta væri þörf á vettvangi skeytamiðlunar.

Í framhaldi af þessum fundum sem fóru fram í apríl 2018 hefur stjórn Icepro tekið saman atriði sem talið er að geti orðið skeytamiðlun á Íslandi til framþróunar. Unnið er að frekari úrlausn þessara atriða og verða niðurstöður kynnar síðar.

Niðurstaða þessara funda var að senda áskorun til yfirvalda um tvö atriði.

Annars vegar, að skrá íslenskar kennitölur skv. ISO 6543 staðli í kótalista sem nefnist International Code Designator (ICD). Kótinn segir til um hvers eðlis auðkenni aðila er og er notað til uppflettingar við skeytaflutning og villuprófun. Þetta hefur nú þegar verið framkvæmt og greitt fyrir.

Hins vegar að Íslenska ríkið gerist fullgildur meðlimur í OpenPeppol. Með því er hægt að gæta hagsmuna Íslands varðandi sendingar rafrænna viðskiptaskjala landa á milli. Þessum hluta er ekki lokið og verkefnið því enn í vinnslu í desember 2018.

Rafrænt skjal sem lögformlegt skjal

Stjórn Icepro í samstarfi við Guðbjörgu Þorsteinsdótur lögfræðing hjá Deloitte og Elfi Logadóttur lögfræðing hjá ERA hafa unnið að spurningum sem lagðar hafa verið fyrir fulltrúa Ríkisskattstjóra og óskað verður svara við. Spurningarnar lúta að túlkun Ríkisskattstjóra á ýmsum atriðum sem varða rafræna reikninga, flutning þeirra og meðferð í bókhaldi.

Upplýsingar verða veittar um niðurstöðu þegar hún liggur fyrir. Bréfið verður sent RSK í júní 2018.

Í desember 2018 er staðan sú að embætti Ríkisskattstjóra er í startholum með að senda fyrirspurn á öll hugbúnaðarhús sem sýsla með ERP kerfi til að kanna hvaða leiðir eru færar í að gera úttektir RSK á bókhaldi fyrirtækja rafrænar þannig að ekki þurfi t.d. að senda þeim pappírsútgáfu reikninga þar sem rafrænn reikningur er frumrit.