Loksins! Evrópskur staðall um rafrænan reikning!

Staðall um samræmdan rafrænan reikning fyrir alla Evrópu er orðinn að veruleika. Í mars 2014 gaf Evrópuþingið ásamt ráðinu út tilskipun um rafræna reikninga í opinberum innkaupum og fól Staðlasamtökum Evrópu CEN verkefnið. Tilgangurinn er að auðvelda millilandaviðskipti á innri markaði Evrópu.

Fjármálaráðuneytið tók undir tilskipunina og ákvað að frá og með 1. janúar 2015 skyldu allir reikningar sendir opinberum aðilum verða rafrænir. Sjá: 10.2.2014 Mikill sparnaður með rafrænum reikningum

Um miðjan marsmánuð 2017 lauk CEN verkefninu með útgáfu staðals og tækniforskriftar. Staðallinn var samþykktur af 25 staðlaráðum, en tækniforskriftin af 24.

EN 16931-1 er staðall um rafrænan reikning
TS 16931-2 er tækniforskrift um lista yfir málskipanir. 
Sjá nánar: 15.03.2017 Tilkynning CEF um staðalinn

Síðasti vinnufundur CEN fór fram í október 2016: 
Nokkrir tenglar frá fyrri tíð um staðalvinnuna um samræmdan rafrænan reikning í Evrópu:

Í framhaldi af útgáfu reikningsstaðalsins verður ráðist í útgáfu staðla um rafræn innkaup í heild. Í verkefnaskránni er að finna rafrænar pantanir, vörulista, úboð og útboðstilkynningar svo að fátt eitt sé nefnt.

Vinnunefnd nr. 440 hjá CEN hefur hafið vinnuna, sem lýkur vonandi árið 2019. Fulltrúi ICEPRO tók þátt í stofnfundi CEN/TC/440 í Kaupmannahöfn þann 17. júní 2015. ICEPRO mun leitast við að taka þátt og upplýsa landsmenn um framvindu verksins.

Af aðalfundi ICEPRO þriðjudaginn 21.febrúar 2017

Dagskrá fundarins var á þessa leið:

  • Afhending fundargagna - hádegisverður
  • Setning aðalfundar ICEPRO
  • Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, flytur erindið: stafrænar áskoranir og kröfur komandi kynslóða
  • Arnaldur Axfjörð, ráðgjafi hjá Admon, fjallar um: rafrænar þinglýsingar - traust viðskipti
  • Hefðbundin aðalfundarstörf skv. 9. gr. samþykkta ICEPRO

Formaður ICEPRO, Hjörtur Þorgilsson, setti fundinn og bauð 32 fundargesti velkomna.

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri og fyrrum ráðherra (iðnaðar, fjármála og efnahags), sté næst í pontu.

Katrín sagði fjármálageirann leika stórt hlutverk í framþróun rafrænna viðskipta og nýrrar tækni, sem gerir viðskipti fyrirtækja skilvirkari og lækkar kostnað. Íslendingar hefðu staðið framarlega í gegnum tíðina og innviðir á borð við greiðslumiðlun hafa um langt skeið verið til fyrirmyndar hér á landi. “Við náðum að halda því kerfi gangandi þrátt fyrir hrunið” sagði hún.

Íslendingar hafa greiðan aðgang að góðri nettengingu og almennt tölvulæsi er gott. “Við eigum gott tækifæri til að vera í fremstu röð þegar kemur að rafrænum viðskiptum” sagði Katrín, sem man vel eftir umræðunni um að Ísland gæti orðið fyrsta hagkerfi heimsins, sem styddist eingöngu við rafræn viðskipti. Strax árið 1990 sýndi ICEPRO þennan metnað með því að fjalla um pappírslaus viðskipti á aðalfundi.

“Forgangsraðað er inni í ráðuneytunum, því að ef þessi verkefni eru ekki þar, þá eru þau ekki gerð” sagði Katrín, og ennfremur: “Það er ekki síst þess vegna sem vettvangur á borð við ICEPRO er svo mikilvægur. Hann tryggir hlutlausan vettvang þar sem hinu opinbera og fyrirtækjum gefst tækifæri til að sitja við sama borð og koma sér saman um stefnumótun og lausnir við eflingu rafrænna viðskipta.“

Katrín hélt áfram: “Á undanförnum árum hefur SFF átt í góðu samstarfi við ICEPRO. Stærsta málið á dagskrá hefur verið samræming rafrænna reikninga og tryggingarskírteina Vátryggingafélaganna. Þetta mál hefur unnist hratt og vel á vettvangi ykkar og er til þess fallið að spara tugi milljóna á ári hverju fyrir Vátryggingafélgin og viðskiptavini þeirra.”

“Við erum öll hér í þessu og spennt að vinna að frekari verkefnum með ICEPRO. Við höfum verið ánægð með samstarfið hingað til og erum full tilhlökkunar til að takast á við framtíðina í samstarfi við ykkur. Ég þakka kærlega fyrir mig og boðið um að koma”, sagði Katrín að lokum.

Arnaldur Axfjörð steig næstur í pontu og fjallaði um rafrænt traust. Hann undirstrikaði að það þyrfti að standast tímans tönn, þannig að hægt sé að úrskurða í dómsmálum svo lengi sem réttaráhrifin vara. Staðfesting vottorða þarf að halda um áratugi fram í tímann.

Hann sýndi hvernig rafræn auðkenni eru sannprófuð og sömuleiðis sannprófun rafrænnar undirskriftar. Gögn þurfa að geta borist um opið net án þess að týnast. Það hefur orðið athyglisverð þróun í rafrænu trausti manna á milli og nefndi sem dæmi rafrænar þinglýsingar og nýtt útboðskerfi ríkisins. Rafrænar rekjanlegar afhendingarþjónustur flytja rafræn skjöl í öflugu rafrænu umhverfi.

Birt var greinargott yfirlit yfir rafrænar þinglýsingar, sem munu hafa áhrif á fjölda skráa yfir fasteignir, fyrirtæki, skip, ökutæki og þjóðskrá svo að eitthvað sé nefnt. Arnaldur rakti ferli þinglýsinga og undirskrifta og útskýrði virkni undirskriftargáttar þinglýsinga. Hann klykkti út með að framtíðin væri björt – og traust.

Hefðbundin aðalfundarstörf voru næst á dagskrá. Formaður fór yfir skýrslu framkvæmdastjórnar fyrir árið 2016 og hún samþykkt. Gjaldkeri útskýrði endurskoðaðan ársreikning 2016 og hann samþykktur. Engar breytingar voru á árgjaldi né starfsreglum. Formaður kynnti fjárhags- og framkvæmdaáætlun 2017 og þær samþykktar.

Stjórnarkjör fór þannig að Hjörtur Þorgilsson var kjörinn formaður til eins árs, meðstjórnendur til tveggja ára voru kjörnir Arnaldur Axfjörð og Guðrún Birna Finnsdóttir og varamaður til tveggja ára var kjörin Bergljót Kristinsdóttir. Áfram sitja Friðbjörn Hólm Ólafsson, Rebekka Helga Aðalsteinsdóttir og Sigrún Gunnarsdóttir.

Tekið var eftir því að nú eru konur í meirihluta í stjórn ICEPRO í fyrsta sinn.

Formaður sleit fundi um kl. 14:00.