Icepro gerir könnun um upptöku TS-236 og notkun á rafrænum viðskiptaskjölum

Nú nýverið fékk Icepro styrk frá CEF (Connecting Europe Facility) til að framkvæma könnun um notkun á rafrænum viðskiptaskeytum á Íslandi.

Könnunin er hluti af stærra verkefni ICELAND-INV18 sem snýr fyrst og fremst að því að aðstoða átta opinbera aðila, ríkisfyrirtæki og sveitarfélög við að setja upp og taka í notkun samevrópskan rafrænan reikning ÍST EN 16931. Um er að ræða uppfærslu á þeirri XML tækniforskrift og staðli sem er í notkun á Íslandi en ríkisstofnunum ber skilda til að taka hann í notkun frá og með 18. apríl 2019 og sveitarfélögum ári síðar. Jafnframt verður sett upp ein samræmd skematróna opin öllum frá vefsíðu Staðlaráðs og skoðað lagalegt umhverfi rafrænna reikninga. Gefin verður út skýrsla um verkefnið að því loknu haustið 2020.

Könnunin var send á 375 aðila sem nota rafræn viðskiptaskeyti í dag hvort sem er á EDI eða XML sniði. Hún verður send út aftur í júní 2020 til að skoða hvort umhverfið hafi breytst á árinu m.a. með upptöku nýja staðalsins. Litlar upplýsingar eru til um notkun rafrænna viðskiptaskeyta og er með þessari könnun reynt að fá nokkrar upplýsingar um stærðargráðu notkunar innan fyrirtækja og upplifun notenda af notkuninni. Jafnframt er safnað upplýsingum frá skeytamiðlurum um þær skeytategundir sem eru í notkun hérlendis.