Jólafréttabréf Icepro

Breytingar hjá Icepro


Í haust lét Örn Kaldalóns af störfum sem framkvæmastjóri Icepro eftir 12 ára starf. Icepro þakkar honum vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.

Við hans starfi hefur tekið Bergljót Kristinsdóttir. Hún situr jafnframt í stjórn félagsins sem varamaður. Síðustu sextán ár hefur hún unnið í og stýrt upplýsingatæknideild Veritas Capital ehf. og sinnti þar áður starfi sem Navision ráðgjafi hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Strengur ehf. Síðustu 25 ár hefur hún sinnt margvíslegum verkefnum á sviði rafrænna viðskipta í sínum störfum m.a. á sviði EDIfact og XML/UBL innleiðinga og reksturs.

 

Á döfinni

Hvar erum við stödd og hvert er næsta skref?
Opinn upplýsingafundur um rafræn innkaupaferli,  11. janúar 2018 kl. 15


Icepro boðar til upplýsingafundar um rafrænt innkaupaferli þann 11. janúar kl. 15 - 17  í fundarsal Kviku í Húsi atvinnulífsins í Borgarúni 35.

Frummælendur eru:

  • Jakob V. Finnbogason, yfirmaður innkaupa hjá Landspítalanum. 
    Væntingar og vandamál - Sendar hafa verið pantanir og tekið á móti reikningum hjá ákveðnum deildum Landspítalans í nokkur ár. Jakob mun segja frá þeirri vegferð og hvernig tekist hefur til.
  • Rafn Rafnsson, stofnandi Timian software ehf. sem nú hefur verið sameinað Nýherja. Rafn mun segja okkur frá innkaupa- og birgðakerfi sem Timian hefur þróað og er í notkun hjá stórum aðilum eins og Reykjavíkurborg, Hrafnistu ofl. Verið er að leggja lokahönd á pöntunarskeyti í XML sem munu auka gæði kerfisins til muna fyrir þá birgja sem tengjast því.
  • Þórður Bjarnason, stjórnandi innleiðingar á innkaupakerfi fyrir Icelandair Group og dótturfyrirtæki. Gert er ráð fyrir að fara alla leið í rafrænum viðskiptum með pantanir, reikninga og vörulista. Þórður mun segja okkur frá þeirri vegferð og hvernig staðið er að henni.
  • Bergþór Skúlason, formaður tækninefndar FUT og stjórnandi innleiðinga rafrænna reikninga hjá ríkinu segir frá þeim breytingum sem hafa átt sér stað varðandi staðla sem tengjast innkaupaferli að undanförnu.

Eftir framsögu verða pallborðsumræður.

Fundur um traustþjónustur 31. janúar 2018 kl. 15

Ný reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins um rafræna auðkenningu og traustþjónustu verður innleidd í lög hér á landi snemma á næsta ári. Reglugerðin mun taka við af lögum um rafrænar undirskriftir sem hafa verið í gildi frá árinu 2001. Með reglugerðinni koma nýjar kröfur um nýja þætti í traustþjónustu umfram hefðbundnar rafrænar undirskriftir. Á undanförnum árum hefur auk þess verið mikil þróun í stöðlum og viðmiðum fyrir traustþjónustu og fjöldi nýrra staðla, viðmiða og tæknilegra forskrifta verið gefin út.

Nokkuð virðist vanta upp á þekkingu á áhrifum þessara nýju krafna og skilning á mikilvægi þess að samræma og samstilla útfærslu og innleiðingu á stöðluðum lausnum fyrir rafrænar auðkenningar og traustþjónustu. Því mun Icepro efna til upplýsingafundar um málið þann 15. janúar 2018 kl. 15 í fundarsal Kviku í húsi atvinnulífsins í Borgarúni 35.

Arnaldur Axfjörð, einn af sérfræðingum okkar um rafræna auðkenningu og traustþjónustu, mun kynna efnið og fara yfir þá þætti sem helst þarf að huga að í náinni framtíð í tengslum við rafræn samskipti þar sem traust og öryggi skiptir öllu máli.

 

Vinna framundan vegna útgáfu rafræns reiknings á vegum CEN.

Tækninefnd FUT um Grunngerð rafrænna viðskipta, TN GRV boðar til ræsfundar verkefnisins TS 236 Rafrænn reikningur, þann 20. Desember kl. 15 – 16.30 hjá Staðlaráði í Þórunnartúni 2.

Tilgangur verkefnisins er að rita nýja íslenska tækniforskrift TS 236 Rafrænn reikningur sem lýsir hvernig aðilar á Íslandi sammælast á vettvangi Staðlaráðs um að taka upp staðalinn ÍST EN 16931-1 Electronic invoicing – Part 1 Semantic data model of the core elements of an electronic invoice og fækka með því sérlausnum verulega.

Staðallinn mun taka yfir kröfur í TS 136 Rafrænn reikningur.

Verkefnið er styrkt af Fjármála- og efnahagsráðuneyti og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti sem liður í undirbúning upptöku Evróputilskipunar sem skyldar opinbera aðila til að geta tekið við reikningum á grundvelli framangreinds staðals í apríl 2019.

Hagsmunaaðilar eru hvattir til að taka þátt í þessari vinnu, betur sjá augu en auga.

Dagskrá:

  • Kynning á verkefni
  • Kynning á verklagi við gerð TS 236
  • Skipan í vinnhóp
  • Önnur mál

Að lokum óskar stjórn Icepro félagsmönnum öllum og öðrum velunnurum árs og friðar og þakkar fyrir samstarfið á liðnum árum.

Kær kveðja / Best regards,
Bergljót Kristinsdóttir
Framkvæmdastjóri ICEPRO