Niðurstöður fundar TC434 15-16. maí í Kaupmannahöfn

Fundurinn var í umsjón Staðlanefndar Hollands (NEN) og fór fram í húsnæði Staðlanefndar Danmerkur (Dansk Standards) í Kaupmannahöfn dagana 15. og 16. Maí.

 

Helstu atriði og ákvarðanir sem komu fram voru.

 1. Í kynningu sem flutt var af fulltrúa CEN varðandi höfundarrétt kom fram að CEN samþykki að þeir sem keypt hafa eintak af staðlinum geti notað hann í vörum og þjónustum sem þeir veita og birt stuttar tilvísanir til skýringar. Þetta á við um þau skjöl sem eru skylda að nota, þ.e. staðalinn sjálfann, part 1 og syntax bindinguna. Það var almenn skoðun manna að þetta leysi þau höfundarréttar vandamál sem mest hafa truflað. CEN mun jafnframt ræða við CEF (Evrópusambandið) um að veita almennan lesaðgang að staðlinum, þ.e. fyrir þá sem ekki hafa keypt eintak. Slíkar umræður eru stutt komnar og óvíst um niðurstöður. Hvað varðar Ísland þá er þetta í samræmi við þann samning sem gerður hefur verið um Íslensku tækniforskrifina og nýtingu hennar og við því á réttri leið með það.
 2. Samþykkt var að stofna nýjann vinnuhóp (Vinnuhópur 7, WG7) til að útfæra hönnun og umsýslu á gagnagrunni (Registry) yfir þrengingar og viðbætur (CIUS og Extensions). Hópurinn mun stefna að því að settur verði upp einn sameiginlegur gagnagrunnur og verður leitað til Evrópusambandins (CEF) með umsýslu og rekstur hans. CEF hefur þegar sett upp einfaldan lista yfir CIUS og Extensions og mun halda áfram að reka hann og hvetja aðila til að skrá aðlaganir sínar þar. TS236 er þegar skráð þar. https://ec.europa.eu/cefdigital/wiki/display/EINVCOMMUNITY/Community-driven+Registry+of+CIUS+%28Core+Invoice+Usage+Specifications%29+and+Extensions
 3. Samþykkt var að vinnuhópur 1 (staðalinn sjálfur) og vinnuhópur 5 (Extensions) muni vinna saman að gerð stílsniða og annars efnis til að auðvelda og samræma gerð viðbóta. Undirritaður var valinn sem ritstjóri verksins.
 4. Samstaða er um að prófunarverkfæri (schematron) verði unnin utan TC434 og þar með utan höfundarréttar. Leitað verður til CEF með umsjón á því verki en framkvæmdin mun áfram vera í höndum þeirra sérfræðinga sem hafa séð um þessi prófunarverkfæri hingað til. Megin tilgagngur með að fá CEF að þessu er að veita schematronunum formlega ráðandi stöðu sem þær sem allir skuli nota.
 5. Þörf er á að gefa út lagfæringa á syntax bindingum. Gefin verður út leiðrétting (corrigendum) fyrir UBL innan mánaðar þar sem lagaðar verða minniháttar villur sem geta skapað misskilning. Gefnar verðar út uppfærslur á bæði UBL og CII fyrir lok þess árs. Megin efni þeirra verður að bæta inn viðauka þar sem kótalistar verða betur skilgreindir. Ekki verður um að ræða breytingar á þeim svæðum og reglum sem eru í staðlinum sjálfum.

Fundað með skeytamiðlurum

Stórn Icepro fundaði með öllum skeytamiðlurum í apríl s.l., hverjum fyrir sig til að fá betri sýn á þau vandamál sem við er að etja í þeirra starfsemi ef einhver eru og til að fá þeirra sýn á framtíð skeytamiðlunar á Íslandi. 

Nú er stjórnin að vinna úr svörum við þeim spurningum sem lagðar voru fyrir skeytamiðlarana og ákveða aðgerðaplan í framhaldi af þeirri vinnu.

Af aðalfundi ICEPRO þann 22. mars s.l.

Þann 22. mars s.l. hélt ICEPRO aðalfund félagsins í sal Kviku í Borgartúni 35. Boðið var til hádegisverðar og mættu 27 manns.

Eftir hádegisverð voru tveir fyrirlestrar, annars vegar sagði Einar Birkir Einarsson sérfræðingur hjá Fjármálaráðuneytinu okkur frá því hvað er að gerast í upplýsingatæknimálum ríkisins og hins vegar kynnti Arndís Thorarensen verkefnisstjóri hjá Arion banka stafræna vegferð bankans síðustu ár.

ICEPRO veitti tvær viðurkenningar fyrir vel unnin verkefni í þágu rafrænna viðskipta. Viðurkenningarnar eru arftaki EDI bikarsins sem var veittur til ársins 2016 en þótti hafa runnið sitt skeið. Viðurkenningarnar voru veittar Arion banka fyrir framúrskarandi uppbyggingu á stafrænni bankaþjónustu á árinu 2017 og Þjóðskrá Íslands fyrir brautryðjendastarf í rafrænum innskráningum að þjónustu hins opinbera..

Eftir veitingu viðurkenninga fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf.

Einn nýr aðili settist í stjórn, Arnheiður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ský tók sæti varamanns í stað Bergljótar Kristinsdóttur sem sagði af sér stjórnarsetu þar sem hún hefur tekið við framkvæmdastjórn félagsins. 

 

 Arndís Thorarensen sagði frá stafrænni vegferð Arion banka

Arndís Thorarensen sagði frá stafrænni vegferð Arion banka

 Einar Birkir Einarsson sérfræðingur hjá Fjármálaráðuneytinu hélt tölu um upplýsingamál ríkisins í dag.

Einar Birkir Einarsson sérfræðingur hjá Fjármálaráðuneytinu hélt tölu um upplýsingamál ríkisins í dag.

 Veiting viðurkenninga. Hjörtur formaður ICEPRO, Þórhildur Edda frá Arion banka, Halla Björg frá Þjóðskrá Íslands og Bergljót Framkvæmdastjóri ICEPRO

Veiting viðurkenninga. Hjörtur formaður ICEPRO, Þórhildur Edda frá Arion banka, Halla Björg frá Þjóðskrá Íslands og Bergljót Framkvæmdastjóri ICEPRO

20180322_125324.jpg

Jólafréttabréf Icepro

Breytingar hjá Icepro


Í haust lét Örn Kaldalóns af störfum sem framkvæmastjóri Icepro eftir 12 ára starf. Icepro þakkar honum vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.

Við hans starfi hefur tekið Bergljót Kristinsdóttir. Hún situr jafnframt í stjórn félagsins sem varamaður. Síðustu sextán ár hefur hún unnið í og stýrt upplýsingatæknideild Veritas Capital ehf. og sinnti þar áður starfi sem Navision ráðgjafi hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Strengur ehf. Síðustu 25 ár hefur hún sinnt margvíslegum verkefnum á sviði rafrænna viðskipta í sínum störfum m.a. á sviði EDIfact og XML/UBL innleiðinga og reksturs.

 

Á döfinni

Hvar erum við stödd og hvert er næsta skref?
Opinn upplýsingafundur um rafræn innkaupaferli,  11. janúar 2018 kl. 15


Icepro boðar til upplýsingafundar um rafrænt innkaupaferli þann 11. janúar kl. 15 - 17  í fundarsal Kviku í Húsi atvinnulífsins í Borgarúni 35.

Frummælendur eru:

 • Jakob V. Finnbogason, yfirmaður innkaupa hjá Landspítalanum. 
  Væntingar og vandamál - Sendar hafa verið pantanir og tekið á móti reikningum hjá ákveðnum deildum Landspítalans í nokkur ár. Jakob mun segja frá þeirri vegferð og hvernig tekist hefur til.
 • Rafn Rafnsson, stofnandi Timian software ehf. sem nú hefur verið sameinað Nýherja. Rafn mun segja okkur frá innkaupa- og birgðakerfi sem Timian hefur þróað og er í notkun hjá stórum aðilum eins og Reykjavíkurborg, Hrafnistu ofl. Verið er að leggja lokahönd á pöntunarskeyti í XML sem munu auka gæði kerfisins til muna fyrir þá birgja sem tengjast því.
 • Þórður Bjarnason, stjórnandi innleiðingar á innkaupakerfi fyrir Icelandair Group og dótturfyrirtæki. Gert er ráð fyrir að fara alla leið í rafrænum viðskiptum með pantanir, reikninga og vörulista. Þórður mun segja okkur frá þeirri vegferð og hvernig staðið er að henni.
 • Bergþór Skúlason, formaður tækninefndar FUT og stjórnandi innleiðinga rafrænna reikninga hjá ríkinu segir frá þeim breytingum sem hafa átt sér stað varðandi staðla sem tengjast innkaupaferli að undanförnu.

Eftir framsögu verða pallborðsumræður.

Fundur um traustþjónustur 31. janúar 2018 kl. 15

Ný reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins um rafræna auðkenningu og traustþjónustu verður innleidd í lög hér á landi snemma á næsta ári. Reglugerðin mun taka við af lögum um rafrænar undirskriftir sem hafa verið í gildi frá árinu 2001. Með reglugerðinni koma nýjar kröfur um nýja þætti í traustþjónustu umfram hefðbundnar rafrænar undirskriftir. Á undanförnum árum hefur auk þess verið mikil þróun í stöðlum og viðmiðum fyrir traustþjónustu og fjöldi nýrra staðla, viðmiða og tæknilegra forskrifta verið gefin út.

Nokkuð virðist vanta upp á þekkingu á áhrifum þessara nýju krafna og skilning á mikilvægi þess að samræma og samstilla útfærslu og innleiðingu á stöðluðum lausnum fyrir rafrænar auðkenningar og traustþjónustu. Því mun Icepro efna til upplýsingafundar um málið þann 15. janúar 2018 kl. 15 í fundarsal Kviku í húsi atvinnulífsins í Borgarúni 35.

Arnaldur Axfjörð, einn af sérfræðingum okkar um rafræna auðkenningu og traustþjónustu, mun kynna efnið og fara yfir þá þætti sem helst þarf að huga að í náinni framtíð í tengslum við rafræn samskipti þar sem traust og öryggi skiptir öllu máli.

 

Vinna framundan vegna útgáfu rafræns reiknings á vegum CEN.

Tækninefnd FUT um Grunngerð rafrænna viðskipta, TN GRV boðar til ræsfundar verkefnisins TS 236 Rafrænn reikningur, þann 20. Desember kl. 15 – 16.30 hjá Staðlaráði í Þórunnartúni 2.

Tilgangur verkefnisins er að rita nýja íslenska tækniforskrift TS 236 Rafrænn reikningur sem lýsir hvernig aðilar á Íslandi sammælast á vettvangi Staðlaráðs um að taka upp staðalinn ÍST EN 16931-1 Electronic invoicing – Part 1 Semantic data model of the core elements of an electronic invoice og fækka með því sérlausnum verulega.

Staðallinn mun taka yfir kröfur í TS 136 Rafrænn reikningur.

Verkefnið er styrkt af Fjármála- og efnahagsráðuneyti og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti sem liður í undirbúning upptöku Evróputilskipunar sem skyldar opinbera aðila til að geta tekið við reikningum á grundvelli framangreinds staðals í apríl 2019.

Hagsmunaaðilar eru hvattir til að taka þátt í þessari vinnu, betur sjá augu en auga.

Dagskrá:

 • Kynning á verkefni
 • Kynning á verklagi við gerð TS 236
 • Skipan í vinnhóp
 • Önnur mál

Að lokum óskar stjórn Icepro félagsmönnum öllum og öðrum velunnurum árs og friðar og þakkar fyrir samstarfið á liðnum árum.

Kær kveðja / Best regards,
Bergljót Kristinsdóttir
Framkvæmdastjóri ICEPRO

Nýr framkvæmdastjóri Icepro

Bergljót Krisinsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Icepro.

Hún situr jafnframt í stjórn félagsins sem varamaður. Síðustu sextán ár hefur hún stýrt upplýsingatæknideild Veritas Capital ehf. og sinnti þar áður starfi sem Navision ráðgjafi hjá hugbúnaðarfyrirtækin Strengur ehf.

Síðustu 25 ár hefur hún sinnt margvíslegum verkefnum á sviði rafrænna samskipta í sínum störfum m.a. á sviði EDIfact og XML/UBL innleiðinga.

Örn lætur af störfum

Örn Kaldalóns framkvæmdastjóri Icepro síðustu tólf ár lætur nú af störfum.

Örn hefur tekið þátt í þróun tækni- og tölvuumhverfis á Íslandi frá upphafi. Hann telur sig enn geta unnið með gataspjaldakerfið væri honum boðið upp á það svo víðtæk er þekking hans.

Að öðrum ólöstuðum hefur Örn haldið uppi samskiptum við evrópska starfsbræður okkar í rafrænum viðskiptum síðasta áratuginn ásamt því að halda þétt utan um samskipti um sama málefni manna á milli á Íslandi.

Stjórn Icepro þakkar Erni góð störf og óskar honum velfarnaðar á komandi árum.

Vinnufundur CEN/TC/440 um rafræn innkaup

Vinnufundur CEN/TC/440 um rafræn innkaup

Vinnunefnd CEN, Staðlasamtaka Evrópu um rafræn innkaup nefnist TC440. Hópurinn hélt vinnufund í Varsjá, Póllandi 21 og 22. júní síðastliðinn. Jostein Frömyr, formaður hópsins opnaði fundinn og hélt erindi um stöðu og horfur.

Fundinn sóttu 24 skráðir þátttakendur frá Austurríki, Tékklandi, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, Ungverjalandi, Írlandi, Ítalíu, Hollandi, Noregi, Portúgal, Póllandi, Rúmeníu, Serbíu og Svíþjóð. Enginn þátttakandi mætti frá Íslandi að þessu sinni.

Á dagskrá var vinnuáætlun fyrir 2017 og 2018, skýrsla sjö vinnuhópa, skýrsla tengdra aðila og samþykkt ýmissa ákvarðana um framhaldið. Vinnuhóparnir sjö hafa þessi hlutverk:

1. Högun
2. Íðorðanotkun
3. Rafræn tilkynning
4. Rafrænt útboð
5. Rafrænn vörulisti
6. Rafræn pöntun
7. Rafræn afhending

Vinnunefndin hefur skilgreint 211 afurðir. Mikilvægt er að vel sé unnið að málum á tilsettum tíma. Tekist hefur að manna alla vinnuhópana, en því miður hafa Íslendingar ekki séð sér fært að taka þátt, enn sem komið er.

Nefndin leitar eftir fjárstuðningi bæði frá ESB og þátttökuþjóðunum. Fjáröflun gengur hægt, svo að ekki er líklegt að nefndin hafi efni á riturum árið 2017. Það gæti því miður seinkað framvindu verksins.

Búið er að forgangsraða verkefnum fyrir árin 2017 og 2018. Hver hópur gefur út ákveðna viðskiptaferla:

1. Safnlíkan (Meta Model), lausnasniðmál (SAT), samningaskrá
2. Íðorðasafn viðskipta
3. Yfirlit tilkynninga
4. Áskrift og aðgangur að útboðum/viðskiptatækifærum, útgáfa útboða
5. Vörulisti tengdur útboðum
6. Rafræn pöntun, breyting og samþykkt pöntunar, vefskipti
7. Rafræn afhending og rafræn móttökukvittun

Fjallað var um verkáætlun nefndanna. Verkið er unnið að mestu leyti á símafundum, aðra hverja viku. Næsti vinnufundur verður í Dublin á Írlandi 15-16. nóvember 2017.

ICEPRO veitir frekari upplýsingar um verkið. Áhugasamir geta fengið senda skýrslu vinnunefndarinnar (á ensku). Netfang: icepro@icepro.is vefur: www.icepro.is

Samræming burðarlags fyrir rafræn viðskiptaskeyti

Hver eru næstu skref í samræmingu burðarlags fyrir rafræn viðskiptaskeyti?

Þetta er spurning sem við hjá Icepro fáum ítrekað inn á borð til okkar. Nú hefur um árabil verið stöðug aukning í notkun rafrænna reikninga hér á landi og hafa þjónustuaðilar sem bjóða upp á miðlun rafrænna skeyta átt ríkan þátt í því að styðja við þessa þróun. Þeir hlutu Icepro verðlaunin (EDI bikarinn) árið 2016 fyrir aðkomu sína að þessum málum.

Þrátt fyrir það hafa þjónustukaupar þessara aðila upplifað og kvartað yfir því að skort hafi á samvirkni á milli þeirra, til að mynda þegar kemur að sannvottun reikninga (Samræmdar skemtrónur).

Nú stöndum við á þeim tímamótum að á vegum Evrópusambandsins er verið að gefa út staðal um Evrópskan rafrænan reikning, sem opinberir aðilar innan Evrópu ber skylda til að styðja. Hér á landi er hafin vinna hjá tækninefnd FUT (Fagstaðlaráð í upplýsingatækni) við uppfærslu á tækniforskrift um rafrænan reikning sem styðja mun þennan evrópska staðal.

Í ljósi þess er mikilvægt að huga að því hvernig við getum tekið næsta skref í að auka á samræmingu í burðarlagi viðskiptaskeyta, með tilliti til þróunar í Evrópu sem augljóst er að við munum þurfa að taka aukið tillit til í nánustu framtíð.

Icepro vill því bjóða áhugasömum að mæta til stofnfundar hóps um mótun vegvísis til framtíðar í þessum málum, þar sem markmiðið verður að komast að niðurstöðu sem verða muni til hagsbóta fyrir alla notendur rafænna viðskiptahátta.

Fundurinn fer fram miðvikudaginn 17. maí kl. 3-5 á jarðhæð í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, Reykjavík.

Áhugasamir vinsamlega tilkynni mætingu með svarskeyti.

Loksins! Evrópskur staðall um rafrænan reikning!

Staðall um samræmdan rafrænan reikning fyrir alla Evrópu er orðinn að veruleika. Í mars 2014 gaf Evrópuþingið ásamt ráðinu út tilskipun um rafræna reikninga í opinberum innkaupum og fól Staðlasamtökum Evrópu CEN verkefnið. Tilgangurinn er að auðvelda millilandaviðskipti á innri markaði Evrópu.

Fjármálaráðuneytið tók undir tilskipunina og ákvað að frá og með 1. janúar 2015 skyldu allir reikningar sendir opinberum aðilum verða rafrænir. Sjá: 10.2.2014 Mikill sparnaður með rafrænum reikningum

Um miðjan marsmánuð 2017 lauk CEN verkefninu með útgáfu staðals og tækniforskriftar. Staðallinn var samþykktur af 25 staðlaráðum, en tækniforskriftin af 24.

EN 16931-1 er staðall um rafrænan reikning
TS 16931-2 er tækniforskrift um lista yfir málskipanir. 
Sjá nánar: 15.03.2017 Tilkynning CEF um staðalinn

Síðasti vinnufundur CEN fór fram í október 2016: 
Nokkrir tenglar frá fyrri tíð um staðalvinnuna um samræmdan rafrænan reikning í Evrópu:

Í framhaldi af útgáfu reikningsstaðalsins verður ráðist í útgáfu staðla um rafræn innkaup í heild. Í verkefnaskránni er að finna rafrænar pantanir, vörulista, úboð og útboðstilkynningar svo að fátt eitt sé nefnt.

Vinnunefnd nr. 440 hjá CEN hefur hafið vinnuna, sem lýkur vonandi árið 2019. Fulltrúi ICEPRO tók þátt í stofnfundi CEN/TC/440 í Kaupmannahöfn þann 17. júní 2015. ICEPRO mun leitast við að taka þátt og upplýsa landsmenn um framvindu verksins.

Af aðalfundi ICEPRO þriðjudaginn 21.febrúar 2017

Dagskrá fundarins var á þessa leið:

 • Afhending fundargagna - hádegisverður
 • Setning aðalfundar ICEPRO
 • Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, flytur erindið: stafrænar áskoranir og kröfur komandi kynslóða
 • Arnaldur Axfjörð, ráðgjafi hjá Admon, fjallar um: rafrænar þinglýsingar - traust viðskipti
 • Hefðbundin aðalfundarstörf skv. 9. gr. samþykkta ICEPRO

Formaður ICEPRO, Hjörtur Þorgilsson, setti fundinn og bauð 32 fundargesti velkomna.

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri og fyrrum ráðherra (iðnaðar, fjármála og efnahags), sté næst í pontu.

Katrín sagði fjármálageirann leika stórt hlutverk í framþróun rafrænna viðskipta og nýrrar tækni, sem gerir viðskipti fyrirtækja skilvirkari og lækkar kostnað. Íslendingar hefðu staðið framarlega í gegnum tíðina og innviðir á borð við greiðslumiðlun hafa um langt skeið verið til fyrirmyndar hér á landi. “Við náðum að halda því kerfi gangandi þrátt fyrir hrunið” sagði hún.

Íslendingar hafa greiðan aðgang að góðri nettengingu og almennt tölvulæsi er gott. “Við eigum gott tækifæri til að vera í fremstu röð þegar kemur að rafrænum viðskiptum” sagði Katrín, sem man vel eftir umræðunni um að Ísland gæti orðið fyrsta hagkerfi heimsins, sem styddist eingöngu við rafræn viðskipti. Strax árið 1990 sýndi ICEPRO þennan metnað með því að fjalla um pappírslaus viðskipti á aðalfundi.

“Forgangsraðað er inni í ráðuneytunum, því að ef þessi verkefni eru ekki þar, þá eru þau ekki gerð” sagði Katrín, og ennfremur: “Það er ekki síst þess vegna sem vettvangur á borð við ICEPRO er svo mikilvægur. Hann tryggir hlutlausan vettvang þar sem hinu opinbera og fyrirtækjum gefst tækifæri til að sitja við sama borð og koma sér saman um stefnumótun og lausnir við eflingu rafrænna viðskipta.“

Katrín hélt áfram: “Á undanförnum árum hefur SFF átt í góðu samstarfi við ICEPRO. Stærsta málið á dagskrá hefur verið samræming rafrænna reikninga og tryggingarskírteina Vátryggingafélaganna. Þetta mál hefur unnist hratt og vel á vettvangi ykkar og er til þess fallið að spara tugi milljóna á ári hverju fyrir Vátryggingafélgin og viðskiptavini þeirra.”

“Við erum öll hér í þessu og spennt að vinna að frekari verkefnum með ICEPRO. Við höfum verið ánægð með samstarfið hingað til og erum full tilhlökkunar til að takast á við framtíðina í samstarfi við ykkur. Ég þakka kærlega fyrir mig og boðið um að koma”, sagði Katrín að lokum.

Arnaldur Axfjörð steig næstur í pontu og fjallaði um rafrænt traust. Hann undirstrikaði að það þyrfti að standast tímans tönn, þannig að hægt sé að úrskurða í dómsmálum svo lengi sem réttaráhrifin vara. Staðfesting vottorða þarf að halda um áratugi fram í tímann.

Hann sýndi hvernig rafræn auðkenni eru sannprófuð og sömuleiðis sannprófun rafrænnar undirskriftar. Gögn þurfa að geta borist um opið net án þess að týnast. Það hefur orðið athyglisverð þróun í rafrænu trausti manna á milli og nefndi sem dæmi rafrænar þinglýsingar og nýtt útboðskerfi ríkisins. Rafrænar rekjanlegar afhendingarþjónustur flytja rafræn skjöl í öflugu rafrænu umhverfi.

Birt var greinargott yfirlit yfir rafrænar þinglýsingar, sem munu hafa áhrif á fjölda skráa yfir fasteignir, fyrirtæki, skip, ökutæki og þjóðskrá svo að eitthvað sé nefnt. Arnaldur rakti ferli þinglýsinga og undirskrifta og útskýrði virkni undirskriftargáttar þinglýsinga. Hann klykkti út með að framtíðin væri björt – og traust.

Hefðbundin aðalfundarstörf voru næst á dagskrá. Formaður fór yfir skýrslu framkvæmdastjórnar fyrir árið 2016 og hún samþykkt. Gjaldkeri útskýrði endurskoðaðan ársreikning 2016 og hann samþykktur. Engar breytingar voru á árgjaldi né starfsreglum. Formaður kynnti fjárhags- og framkvæmdaáætlun 2017 og þær samþykktar.

Stjórnarkjör fór þannig að Hjörtur Þorgilsson var kjörinn formaður til eins árs, meðstjórnendur til tveggja ára voru kjörnir Arnaldur Axfjörð og Guðrún Birna Finnsdóttir og varamaður til tveggja ára var kjörin Bergljót Kristinsdóttir. Áfram sitja Friðbjörn Hólm Ólafsson, Rebekka Helga Aðalsteinsdóttir og Sigrún Gunnarsdóttir.

Tekið var eftir því að nú eru konur í meirihluta í stjórn ICEPRO í fyrsta sinn.

Formaður sleit fundi um kl. 14:00.