Ársskýrsla 2017

Skýrsla framkvæmdastjórnar árið 2017

Árið 2017 var að mörgu leiti sérstakt í sögu ICEPRO.  Snemma vors var auðsýnt að Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mundi ekki viðhalda samningi sínum við ICEPRO um fjármögnun. Var að því látið liggja að ICEPRO gæti sótt um stuðning við skilgreind verkefni. Þegar eftir því var leitað voru dræm svör og engan stuðning að hafa.  

Einnig  kom í ljós að Efnahags- og fjármálaráðuneytið hygðist ekki endurnýja samstarfssamning við Icepro um verkefnið Landsumgjörð um samvirkni og hafði það einnig áhrif á tekjur félgsins. 

Á sama tíma var komið að lokum starfsferils Arnar Kaldalóns sem framkvæmdastjóra ICEPRO til 12 ára. Við svo búið var ákveðið að draga saman seglin og skera niður. Ákveðið var að segja upp skrifstofuaðstöðu og bókhaldsþjónustu hjá Viðskiptaráði Íslands í Borgartúni 35 en halda fundaraðstöðu þar áfram. Nýr framkvæmdastjóri Bergljót Kristinsdóttir tók við 1. október í hlutastarfi og færði hún skrifstofuaðstöðu heim til sín ásamt því að taka að sér fjármál og bókhald félagsins. ICEPRO heldur enn góðu sambandi við Viðskiptaráð Íslands enda eru tengslin við atvinnustarfsemi í landinu nauðsynleg. Mikil vinna var samfara því að leggja niður skrifstofu ICEPRO til tæpra þrjátíu ára og tók sú vinna lungann úr sumrinu og haustinu. Þó nýi framkvæmdastjórinn væri málum kunnugur eftir að hafa setið í varastjórn s.l. tvö ár tók einnig á að rekja garnirnar úr Erni og setjast í hans sæti. Honum er þakkað gott og ríkulegt starf í þágu rafrænna viðskipta á Íslandi og erlendis fyrir Íslands hönd. 

Þó svo að þessar breytingar á stöðu ICEPRO hafi yfirskyggt aðra uppbyggilega vinnu sem annars hefði verið sinnt var þó sitthvað gert.

Aðalfundur

Góð mæting var á aðalfund ICEPRO sem haldinn var 21. febrúar 2017. 32 félagar mættu á fundinn sem haldinn var í Snæfelli á Hótel Sögu.  Í ár sá ráðherra iðnaðar og nýsköpunnar sér ekki fært að ávarpa fundargesti enda svo gott sem búinn að afneita okkur. Í hans stað ávarpaði fundinn Katrín Júlíusdóttir fyrrverandi ráðherra og framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja. Hún ræddi m.a. um tengsl SFF við ICEPRO og nauðsyn þess að eiga þar hlutlausan vettvang þar sem ólíkir aðilar geta sest að borði og fundið sameiginlegar lausnir og farveg.

Arnaldur Axfjörð var með góða tölu um traustþjónustur og útskýrði rafrænt traust fyrir fundarmönnum við góðar undirtektir. 

Að þessu sinni þótti ekki ástæða til að veita neinum EDI bikarinn. Ástæðan var sú ekki bárust tilnefningar sem þóttu skara fram úr.

Við stjórnarkjör settist nýr aðili í stjórn félagsins. Guðrún Birna Finnsdóttir hjá Ríkiskaupum. Aðrir stjórnarmeðlimir eru, Hjörtur Þorgilsson formaður, Arnaldur Axfjörð gjaldkeri, Friðbjörn Ólafsson varaformaður, Rebekka H. Aðalsteinsdóttir ritari og í varastjórn Sigrún Gunnarsdóttir og Bergljót Kristinsdóttir.

Stefnumótun ICEPRO

Í byrjun maí vann framkvæmdastjórn ICEPRO stefnumótun í ljósi breyttra aðstæðna. Helstu niðurstöður hennar voru eftirfarandi:

  • Finna þarf leiðir til að styrkja fjárhagslegan grunn starfseminna
  • Starfsemin verði skipulögð í kringum verkefn
  • Leitað verði leiða til að styrkja samstarf við atvinnulífið
  • Áhersla lögð á að halda tengslum við Landsumgjörð
  • Auka þarf sýnileika Icepr
  • Skipuleggja þarf mönnun til lengri og skemmri tíma

Þrátt fyrir miklar breytingar hjá ICEPRO voru allir stjórnarmenn sammála um að enn væri þörf fyrir ICEPRO á sviði rafrænna samskipta á Íslandi. Enginn annar aðili sér um kynningu á þeim tækniforskriftum sem gefnar eru út og passar upp á samræmd vinnubrögð á þeim vettvangi né er nokkur sem kynnir og fylgist með slíku starfi á erlendum vettvangi.

Landsumgjörð 

Þrátt fyrir að samningur við Fjármála- og efnahagsráðuneytið um verkefnið Landsumgjörð um samvirkni hafi ekki verið endurnýjaður í nóvember 2016, vann formaður ICEPRO að kynningu verkefnisins   allt fram að UT messu sem að venju var haldin í byrjun febrúar og hélt erindi um verkefnið á messunni. Eftir það hefur engin formleg vinna átt sér stað um landsumgjörð sem er í fóstri hjá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Vinnuhópur um burðarlag

Stofnfundur vinnuhóps um burðarlag var haldinn 17. maí 2017. Þó saknað væri fulltrúa tveggja skeytamiðlara á fundinum var hann mjög uppbyggilegur. Áhersla var lögð á að Ísland ætti fullgilda aðild að Peppol en það kostar 10 þúsund evrur og þarf að greiðast af hinu opinbera.

Rætt var um  hvernig skeytamiðlarar vinna með mismunandi skematrónur af rafrænum reikningum TS135 (NES) og TS136 sem eru báðar í notkun. Bent var á hættuna á að skeyti hverfi á leið til viðtakanda ef ekki eru sendar upplýsingar um villur sem stöðva skeytasendingu. Stjórn ICEPRO stefnir að því að fá alla skeytamiðlara að borðinu til að skoða betri samræmingu til framtíðar.

Vinnuhópur um EDI notendur

EDI notendur eru vel samstíga í dag. Því þarf að tryggja þeim greiða leið að framtíðar viðskiptum. Búast má við að sitt sýnist hverjum, og brýnt að málið sé rætt málefnalega.
Ekki er verið að leggja niður EDIFACT staðla, en sumir þurfa að taka þátt í viðskiptum milli landa, yfir landamæri. Aðrir vilja losna við EDI þýðandann. Samþykkt var á vettvangi CEN að móttaka opinberra fyrirtækja á reikningum á EDIFACT staðli væri ekki skilda heldur valkvætt. Það er því í höndum ríkis og sveitarfélaga að ákveða hvort þeir muni taka við slíkum skeytum eða krefjast skeyta á XML sniði.

Í maí var send út skoðannakönnun til meðlima ICEPRO þar sem reynt var að fá svör við því hvaða leið hugnaðist EDI notendum til framtíðar. Ekki var mikið um svör og í framhaldinu var stofnaður vinnuhópur með fulltrúum frá GS1, Midran, SS og Grófargili ásamt framkvæmdastjóra ICEPRO. Framkvæmdastjóri ICEPRO tók að sér að hafa samband við stóra EDI notendur og kanna þeirra afstöðu. Þetta verkefni er enn í gangi en segja má að þeir aðilar sem rætt hefur verið við séu sáttir við sitt EDI á meðan samskiptaþjónustan er í lagi. Hún hefur breyst töluvert til hins betra með tilkomu nýs EDI skeytamiðlara hjá Staka/Deloitte. Notendur DK hugbúnaðar eru einnig í góðum málum þar sem öll skeytasamskipti þeirra fara í gegnum pósthús DK sem ekki byggir á úreltri tækni. Allir sem rætt hefur verið við hafa einnig sett upp skeytasendingar á XML formi til að senda ríkinu reikninga sem og til að geta tekið á móti kostnaðarreikningum í sitt eigið bókhald. Haldið verður áfram með verkefnið á árinu.

Erlend samvinna

ICEPRO fylgist með starfi NEP hópsins (Nordic e-Procurement Network) sem stofnaður var árið 2016 og er arftaki NES samstarfs norðurlandaþjóðanna um rafræn innkaup. Haldnir eru símafundir reglulega og í ár var starfið aukið með því að bjóða Eystrasaltsríkjunum aðgang að hópnum. Haldin var ráðstefna í Helsingi í Janúar 2018 til að kynna þeim starfið. Bergþór Skúlason hjá Fjársýslunni fór sem fulltrúi Íslands. Jostein Frømyr veitir starfinu forstöðu og gerir það með sóma.

ICEPRO fylgist einnig með starfi tækninefnda CEN sem eru Staðlasamtök Evrópu. TC-440 er tækninefnd um rafræn innkaup og TC-434 tækninefnd um rafrænan reikning. Frá árinu 2017 ber hæst útgáfa nýs staðals um rafrænan reikning sem er afrakstur vinnu TC-434 nefndarinnar. Hann var gefinn út 17. október og skal vera búið að innleiða hann hjá aðildarþjóðunum þann 18. apríl 2019.  Nú er í fullum gangi vinna hjá Staðlaráði Íslands að vinna tækniforskrift fyrir íslenskan markað. 

Af starfi TC-440 nefndarinnar er helst að frétta að unnið er að stöðlun á rafrænum innkaupum frá útboðsgerð til greiðslu. Krafa um opinber útboð á Evrópskum markaði hvetur til þess að einn og sami staðlall sé notaður allstaðar innan Evrópska efnahagssambandsins. 

Lokaorð

Í lok árs var farið að undirbúa opna fundi um rafræn innkaup og traustþjónustur sem báðir voru haldnir í janúar 2018 og þóttu takast vonum framar. Greinilegt er að þörf er fyrir opinn vettvang til að ræða þessi mál.

Stjórn ICEPRO er enn að færa út kvíarnar. Rafræn samskipti hafa tekið stökkbreytingu á síðustu árum. Trausti í rafrænum viðskiptum þarf að sinna vel og telur ICEPRO það vera málefni sem vert er að taka inn á borð nefndarinnar. Samræma þarf vinnulag og tryggja samfellu vegna mismunandi útgáfa á stöðlum sbr. TS135 (NES), TS136, og nýjastu útgáfunnar EN 16931‐1 (TS236). Fyrirtæki í landinu eru ekki ginkeypt fyrir því að leggja í breytingar ef það gamla virkar. Því lendir sú vinna meira á skeytamiðlurum. Tryggja þarf samræmd vinnubrögð þeirra á milli. ICEPRO er tilbúið til að leggja sitt af mörkum til að tryggja að þau séu hnökralaus fyrir notendur þjónustunnar.